Við verðum að vakna

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. janúar 2018

Við verðum að vakna

Í umræðunni hefur gjarnan verið talað um mikla fjölgun ungra öryrkja og því velt upp um leið af hverju þeim fjölgi svona mikið.  Mér finnst dapurt, þegar talað er um okkur öryrkja eins og vandamál sem vex of hratt, í stað þess að leitast við að finna ástæður fjölgunarinnar og hugsanlega lausnina um leið.  Ein af staðreyndum fjölgunarinnar er sú, að margir ungir fíklar lenda í því að verða öryrkjar vegna neyslu sinnar. Það er stjórnvalda að tryggja þessum einstaklingum alla þá hjálp sem möguleg er, það er ekki flóknara en það.

Í heimsókn hjá SÁÁ

Þann 3. Janúar sl. heimsótti ég SÁÁ ásamt tveimur þingmönnum Flokks fólksins. Fyrst sjúkrahúsið að Vogi og strax í beinu framhaldi meðferðarheimilið Vík á Kjalarnesi. Ég féll í stafi yfir þeirri fallegu umgjörð og því stórkostlega og óeigingjarna starfi sem samtökin hafa byggt upp. Ekki einungis í þágu þeirra sem glíma við fíknsjókdóminn heldur í þágu þjóðarinnar allrar. Ég er næsta viss um að sú íslenska fjölskylda er vandfundin, sem ekki telur einstakling sem fengið hefur hjálp hjá SÁÁ.

Betur má ef duga skal

Hugsið ykkur að árið 2017 létust 32 áfengis- og vímuefnasjúklingar undir fertugu, 14 þeirra voru undir þrítugu. Dauðsföllin voru fimm fleiri en árið áður. Þessa auknu dánartíðni má rekja til aukningar á notkun sterkra ópíóíða eða morfínskyldra lyfja í æð.

Algengustu og hættulegustu lyfin hér á landi í þessum flokki eru Oxycotin, Contalgin og Fentanyl. Rannsóknir sýna að fólk sem sprautar sig með þessum efnum er 30-60 sinnum líklegri að deyja heldur en jafnaldrar þeirra.

Þórarinn Tyrfingsson fyrrum yfirlæknir á Vogi er sá einstaklingur sem óhætt er að fullyrða að hefur hvað mesta þekkingu og reynslu af þróun fíknsjókdóma hérlendis. Hann segir að nú sé stíflan brostin og að á síðustu tveimur árum hafi yfirvöld misst stjórn á vandanum. Það sé alveg ljóst að bregðast verður strax við ef það á að vera nokkur leið, að snúa af þessari óheillabraut.  Allir viðbragðsaðilar eru fjársveltir og biðlistinn á Vogi hefur aldrei verið lengri. „Þetta er miklu meira en deyr úr bílslysum, þetta er á við stóru sjóslysin okkar í gamla daga og viðbúnaðurinn sem var gerður þá – nú þurftum við að gera sama viðbúnað í þessu. Við verðum að setja af stað neyðaráætlun og hún kostar peninga.“ segir Þórarinn

Þetta eru skelfilegar staðreyndir og löngu tímabært að stjórnvöld vakni af Þyrnirósarsvefninum og taki utanum fíklana okkar og hjálpi þeim með ráðum og dáð. Fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar til næstu fimm ára mun sýna vilja þeirra í verki.

Höf.

Inga Sæland þingmaður og formaður Flokks fólksins