HVERS VEGNA FLOKKUR FÓLKSINS?

Ég er verulega sjónskertur 75% öryrki og er því vön, að þurfa að neita mér um veraldleg gæði sem flestir myndu telja sjálfsögð. Ég horfi upp á eldri borgara sem sitja við sama borð og ég þ.e. draga fram lífið á framfærslu undir viðurkenndum fátækramörkum. Ég hef látið mig hafa það, haldandi að ég gæti ekkert aðhafst í stöðunni. En þá vissi ég hins vegar ekki um fátæku börnin okkar, en það var einmitt vitneskjan um þau sem varð til þess að ákvörðunin um stofnun Flokks Fólksins var tekin.

Nú er svo komið að við höfum skorið upp herör gegn fátækt og spillingu. Við trúum, að samtakamáttur okkar sé það mikill, að saman getum við leiðrétt þá mismunun og það gífurlega óréttlæti sem við höfum mátt búa við svo allt of lengi.

STAÐREYNDIN UM FÁTÆKU BÖRNIN

Samkvæmt rannsóknarskýrslu UNICEF á Íslandi frá því í Janúar 2016, þá líða 9,1% íslenskra barna mismikinn skort. Þetta eru samtals 6107 börn og þar af eru 1586 þeirra sem líða verulegan skort.
Þetta eru börnin sem geta verið svöng þar sem þau hafa ekki nesti með sér í skólann, fá ekki að borða með hinum börnunum í hádeginu af því að foreldri/foreldrar hafa ekki ráð á að greiða fyrir skólamáltíðir.
Þetta eru börnin okkar sem fá ekki tækifæri til að stunda íþróttir, læra á hljóðfæri, eignast ónotuð föt, né heldur fylgja eftir því sem talið er falla undir eðlilega framfærslu barna almennt.
Þetta eru börnin okkar sem oftast lifa við hvað erfiðastar aðstæður heima fyrir. Að hugsa sér að stjórnvöld skuli ekki sjá ástæðu til að skera upp herör gegn þessum sorglegu aðstæðum.

ER EITTHVAÐ DÝRMÆTARA EN BÖRNIN OKKAR?

Svarið við spurningunni er einfalt. Það er ekkert dýrmætara en þau.
Litla fólkið okkar sem líður hér skort fær aldrei að njóta æskunnar, lifir við sult og seiru og virðist gleymast í umræðunni. Þetta eru einstaklingarnir sem eiga hvað mest á hættu að verða utan gátta í samfélaginu og lenda upp á kant við lög og reglur. Við megum aldrei gleyma því að þetta er ekki þeim að kenna, þau völdu ekki þetta erfiða hlutskipti sitt og eiga ekki að þurfa að ganga í gegnum æskuna sem eitt stórt refsingartímabil vanlíðunar og óhamingju.

Flokkur Fólksins vill taka utan um börnin okkar. Ekkert barn á NOKKURN TÍMANN AÐ VERA SVANGT Á ÍSLANDI.

FLOKKUR FÓLKSINS KALLAR Á ÞIG!

Setjum X við F og hjálpumst að við að útrýma fátækt og spillingu. Rekum burt allt okrið og græðgina og gerum það saman.

Flokkur Fólksins vill stokka spilin upp á nýtt og koma á verðlagi hér á landi til samræmis við það besta sem þekkist í löndunum í kringum okkur.

Flokkur Fólksins vill gera öllum kleift að lifa hér með reisn en ekki bara fáum útvöldum auðvaldsgæðingum.

Þess vegna er Flokkur Fólksins til. Þess vegna er Flokkur Fólksins flokkurinn þinn. X við F

Kær kveðja
Inga Sæland