Fjármálastjórn
Uppstokkun verði í fjármálakerfi landsins þar sem hagur neytanda og lántakenda sé í fyrirrúmi. Verðtrygging verði afnumin af neytendalánum og fasteignalánum og vextir lækkaðir þannig að þeir verði ekki hærri en best þekkist í nágrannalöndunum. Aftengd verði leiga og verð húsnæðis úr vísitölumælingu Hagstofunnar. Flokkurinn vill aðskilnað fjárfestinga- og viðskiptabanka ásamt því að samfélagsbanki verði stofnaður.


Sjávarbyggðir og stjórn fiskveiða
Sjávarútvegurinn er undirstaða fyrir blómlega byggð á Íslandi. Afar mikilvægt er að tryggja að nýtingarréttur á fiskimiðunum glatist ekki frá sjávarbyggðum umfram það sem orðið er. Hlúa ber að þessum byggðum. Þjóðin öll á að njóta afraksturs af fiskimiðum hennar. Aukið verði frelsi til strandveiða.


Landsbyggðin
Flokkur fólksins leggur áherslu á þróttmikla starfsemi ílandbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Kappkostað verði að tryggja byggð um allt land. Sátt finnist milli framleiðenda íslenskra matvæla og neytenda þannig að báðir búi við góðan hag. Stuðlað verði að fjölbreyttari markaðssetningu afurða beint frá bændum til neytenda, t.d. með að ná fram löggiltri heimaslátrun. Aðsteðjandi fjárhagsvandi sauðfjárbænda er tímabundið vandamál sem brýnt er að leysa. Síðan verði að hefja markvissar aðgerðir í markaðsmálum sauðfjárafurða.


Samgöngur
Gert verði átak til að efla samgöngur og umferðaröryggi í landinu. Flugvöllur verði áfram staðsettur í Vatnsmýri.

Löggæsla
Efla skal löggæslu landsins m.a. með því að fjölga stórlega starfandi löggæslumönnum á öllum sviðum.

Umhverfismál
Auka ber vernd íslenskrar náttúru, fara með gát í virkjanamálum og láta náttúruna ætíð njóta vafans. Stjórnskipun og lýðræðisumbætur
Flokkur fólksins vill standa vörð um sjálfstæði Íslands, beita sér fyrir auknu beinu lýðræði og endurskoðun á kosningalöggjöfinni. Réttur almennings til upplýsinga um málefni stjórnsýslunnar verði tryggður í samræmi við gagnsæiskröfu samtímans. Flokkurinn vill stuðla
að breytingum á þingsköpum Alþingis, m.a. þannig að málatilbúnaður dagi ekki uppi milli þinga á hverju kjörtímabili.


Utanríkismál
Flokkurinn styður aðild Íslands að NATO, er fylgjandi EES-samningnum en hafnar aðild að Evrópusambandinu. Flokkur fólksins styður endurskoðun á Schengensamkomulaginu líkt og aðrar eyþjóðir hafa gert með því að herða á landamæraeftirliti landsins með auknu vegabréfaeftirliti. Endurskoða skal þátttöku Íslands í viðskiptabanni gegn Rússlandi.


Innflytjendur, flóttafólk og hælisleitendur
Flokkurinn telur afar brýnt að innflytjendur sem setjast að hér á landi fái fulla aðstoð við að læra íslensku og stuðning til aðlögunar að þjóðfélaginu. Flokkur fólksins styður móttöku kvótaflóttafólks til landsins og leggur áherslu á góðan aðbúnað þess og aðlögun að
íslensku samfélagi. Málefni hælisleitenda séu afgreidd með skilvirkum hætti að norskri fyrirmynd innan 48 klukkustunda.

Áhersluatriði Flokks fólksins fyrir alþingiskosningar 2017
1. Persónuafsláttur verði hækkaður svo að tryggja megi 300.000 kr. skattfrjálsa framfærslu á mánuði.


2. Komið verði á fót félagslegu kaupleigukerfi og leigumarkaði sem ekki hefur hagnað að leiðarljósi. Húsnæðisöryggi er grundvöllur að hagsæld og hamingju þjóðarinnar. Friðhelgi heimilisins stjórnarskrárvarinn réttur okkar allra.


3. Verðtrygging á neytendalánum og fasteignalánum verði afnumin og vextir lækkaðir, m.a. með því að aftengja leigu og verð húsnæðis frá vísitölumælingu Hagstofu Íslands.


4. Afnema ber skerðingar greiðslna milli almannatrygginga og lífeyrissjóða, lífeyrissjóðskerfið verði endurskoðað og frítekjumark afnumið.


5. Grunnheilbrigðisþjónustan verði gjaldfrjáls. Framlög til heilbrigðisþjónustu í hlutfalli við landsframleiðslu verði aukin

Flokkur fólksins
Flokkur fólksins er nýtt frjálslynt og víðsýnt stjórnmálaafl sem starfar á miðju íslenskra stjórnmála. Flokkur fólksins leggur áherslu á ábyrga og styrka stjórn landsmála
með farsæld almennings fyrir augum. Flokkurinn er reiðubúinn að vinna með öllum þeim sem eru tilbúnir til að vinna að hagsæld og velferð allra landsmanna.

Öryrkjar og eldri borgarar
Öryrkjum og eldri borgurum verði tryggð mannsæmandi afkoma svo að þeir geti lifað með reisn. Stjórnarskrárvarin réttindi þessara þjóðfélagshópa verði virt í hvívetna. Flokkur fólksins vill löggildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þar með innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð, NPA. Afnema ber skerðingar greiðslna milli almannatrygginga og lífeyrissjóða til einstaklinga og fella brott frítekjumarkið. Hafnað er fyrirliggjandi drögum að starfsgetumati. Fullt samráð verði haft við hagsmunasamtök öryrkja um nýtt starfsgetumat m.a. með því að koma á miðstöð starfsgetu og endurhæfingar.

Láglaunafólk
Flokkur fólksins vill tryggja að 300 þúsund króna mánaðarlaun verði ekki skattlögð, en tekjur umfram það, verði skattlagðar í þremur þrepum þar sem
persónuafsláttur fer stiglækkandi eftir því sem launin verða hærri og fellur að lokum niður við 1.5 millj. kr. mánaðargreiðslu.

Börnin
Flokkur fólksins krefst þess að ekkert íslenskt barn búi við fátækt. Virt verði sú vernd sem stjórnarskrá veitir börnum. Þar segir: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd
og umönnun sem velferð þeirra krefst“. Öllum börnum verði tryggður gjaldfrjáls og hollur matur í grunnskólum og leikskólum. Skólastarf sé þróttmikið með áherslu á
sjálfsstyrkingu, mannleg samskipti, virðingu og kærleika.

Unga fólkið
Komið verði á fót félagslegu kaupleigukerfi sem tryggi að ungu fólki sé gert kleift að eignast eigið heimili. Um 30 þúsund Íslendingar hafa yfirgefið landið í leit að betri
lífsgæðum. Við viljum fólkið okkar aftur heim með því að greiða götu þess m.a með hagræðingu og lækkun húsnæðis- og leigukostnaðar.
Leysa skal úr fjárhagsvanda háskólastigsins og efla rannsóknir og nýsköpun í þágu atvinnulífsins sem undirstöðu að hagsæld og framförum í landinu.
Mennt
er máttur.


Lífeyrissjóðir og almannatryggingar
Flokkur fólksins vill að lífeyrissjóðakerfi landsins verði endurskoðað, meðal annars kostir þess að í framtíðinni verði einn lífeyrissjóður allra landsmanna.
Hafnað er lögþvingaðri upptöku á fé sjóðanna til Tryggingarstofnunar ríkisins. Staðgreiðsla skatta sé greidd við inngreiðslu í sjóðina en ekki við útgreiðslu úr þeim eins
og nú er. Tekjur ríkissjóðs munu þannig aukast um tugi milljarða króna á ári. Þetta fé skal nýta til samfélagslegra verkefna, frekar en það sé þáttur í ávöxtunarstarfi
sjóðanna áratugum saman.


Velferðarmálin og fjármögnun þeirra
Flokkur fólksins vill endurreisa stoðkerfi landsins sem m.a. verði kostað með staðgreiðslu af inngreiðslum í lífeyrissjóði. Einnig með komugjöldum og afnámi
undanþága af virðisaukaskatti. Fullt verð fáist fyrir aðgang að öllum auðlindum og sparnaður náist með hagræðingu. Grunnheilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls fyrir alla. Framlög til heilbrigðisþjónustu í hlutfalli við landsframleiðslu verði aukin. Nýr Landspítali rísi á nýjum stað
 .