Flokkur fólksins vill auka fjárveitingu til SÁÁ

“Fjórir þingmenn Flokks fólksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að sjúkrastofnunum SÁÁ verði tryggð aukafjárveiting og að gerður verði nýr þjónustusamningur milli sjúkrastofnana SÁÁ annars vegar og Sjúkratrygginga Íslands hins vegar. Markmiðið með tillögunni er sagt vera að „bregðast við vaxandi heilbrigðisvanda áfengis- og vímuefnasjúklinga og ótímabærum dauðsföllum meðal þeirra yngstu í þeim hópi.“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er flutningsmaður tillögunnar en þar kemur fram að kostnaður við rekstur Vogs á verðlagi í janúar 2018 hafi verið rúmar 925 milljónir en framlag ríkisins verið 694 milljónir.  Þá hafi kostnaður við rekstur dagdeildarinnar Víkur verið 327 milljónir en framlag úr ríkissjóði 219 milljónir.

Í greinargerð tillögunnar segir að í lok árs hafi tæplega 21 þúsund Íslendingar greinst með alvarlegan áfengis- og vímuefnavanda á sjúkrahúsinu Vogi. Þetta sé mikill fjöldi sjúklinga sem glími við langvarandi og erfið veikindi og þeim fjölgi um 600 á ári hverju.

Tölur frá Landspítalanum,  Vogi, Embætti landlæknis og lögreglunni sýni að ástand þessara sjúklinga hafi versnað til muna síðastliðin tvö ár. Ástæðan sé talin vera breytt og vaxandi neysla. Það hafi til að mynda færst í vöxt að sjúklingar sprauti vímuefnum í æð. „Staðan er grafalvarleg og undanfarin fimm ár hafa nálægt 500 einstaklingar úr þessum sjúklingahópi látist langt fyrir aldur fram.“

Átakanleg aukning hafi orðið á dauðsföllum þeirra yngstu síðustu tvö ár en fram kemur í greinargerðinni að  52 einstaklingar yngri en 40 ára hafa látist, þar af 21 einstaklingur yngri en 30 ára. „Rekja má aukna dánartíðni þeirra yngstu til vaxandi notkunar sterkra ópíóða í æð, líkt og Oxycontin, Contalgin og Fentanyl.“

Þá segir enn fremur að þrír af hverjum tíu sem Hagstofa skráði og létust á aldrinum 20 til 55 hafi þegar verið á skrá hjá sjúkrahúsinu Vogi. „Eftir stendur spurningin: Hvað hefði mátt bjarga mörgum þeirra ef aðstæður hefðu verið fyrir hendi?“

Inga sagði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi um miðjan síðasta mánuð að á meðan 500 til 600 Íslendingar, áfengis- og vímuefnasjúklingar, biðu eftir því að fá úrræði og hjálp dæju þau. „Þau deyja á þessum biðlista, við getum líkt þessu við það að fólki væri meinað að fara á bráðamóttökuna vegna þess að það á að bíða fyrir utan og getur þá bara dáið á meðan.“

Grein birtist á www.ruv.is 08.04.2018