Enn jólin

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29.11.2017

Enn jólin

Ég er döpur þegar ég skrifa þetta, döpur vegna þeirra sem eiga um sárt að binda vegna fátæktar, þeirra sömu sem eiga í engin hús að vernda og búa jafnvel í tjöldum og hjólhýsum nú um hávetur í hörkufrosti. Hvar eru stjórnvöld nú ?

Ég fæ daglega bréf þar sem ég er beðin um fjárstuðning fyrir mat handa börnum fátækrar móður eða föður. Hvar eru stjórnvöld nú ?

Ég heyri grátinn, skynja sársaukann á bakvið hann og kvíðann fyrir jólunum sem eiga að vera hátíð ljóss og friðar en hjá allt of mörgum eru þó ekkert annað en tíminn sem undirstrikar vanmáttinn og fátæktargildruna sem herðir að frá öllum áttum. Hvar eru stjórnvöld nú ?

Ný ríkisstjórn

Nú tekur ný ríkisstjórn við þjóðarbúinu og efalaust margir sem binda vonir við það að loks verði eitthvað að marka hin fögru fyrirheit kosningaloforðanna. Við skulum ekki gleyma því að allir flokkar, og þá meina ég allir!, lofuðu því að við skyldum öll fá að njóta ávaxta góðærisins. Allir viðurkenndu að það væri þjóðarskömm að hér skuli vera fátækt, þótt einhverjir reyndu þó að afneita því hversu alvarlegt ástandið er í raun og veru.

Ný ríkisstjórn leggur fram nýtt fjárlagafrumvarp og eðli málsins samkvæmt þá hjótum við að vænta þess að hún forgangsraði fjármununum í þágu þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. Þeir tala um stóru málaflokkana, tala um innviðina. Engin mælir því mót að við þurfum að byggja á traustum innviðum en það hlýtur alltaf að vera forgangur og skylda ríkjandi stjórnvalda á hverjum tíma að sjá til þess að borgararnir séu eins öruggir og mögulegt er. Ég er að tala um fæði, klæði og húsnæði fyrir alla.

Í umboði kjósenda

Ég kallaði á kjósendur og bað um umboð ykkar til að komast að áhrifamesta ræðupúlti landsins. Ég þráði það, að geta talað röddu okkar sem höfum staðið höllum fæti í samfélaginu og ekki fengið að taka þátt í hagsældinni og góðærinu sem hér ríkir. Ef við Íslendingar, getum ekki undir þessum kringumstæðum útrýmt fátækt þá getur það enginn.

Í umboði ykkar þar sem hátt í fjórtán þúsund kjósendur gáfu okkur sitt dýrmæta atkvæði, á Flokkur fólksins nú fjögurra manna þingflokk. Við höfum engu gleymt og erum auðmjúk og þakklát því mikla trausti sem okkur hefur verið sýnt og munum berjast af öllu afli gegn því ríkjandi óréttlæti og þeirri gengdarlausu mismunun sem okkur þegnunum er sýnd.

Höf.
Inga Sæland                                                                                                                                                                                                            formaður Flokks fólksins