Landsfundur Flokks fólksins

8.-9. september 2018

 

Ályktun um velferðarmál

 Flokkur fólksins vill stefna að útrýmingu fátæktar enda á enginn að þurfa að búa við örbirgð á Íslandi.

Fæði, klæði og húsnæði fyrir alla.

Fólkið fyrst.

 

Almannatryggingar

Persónuafsláttur verði hækkaður svo að tryggja megi 320.000 kr. skattfrjálsa framfærslu á mánuði og hækki í samræmi við launavísitölu. Þá er stór hópur lífeyrisþega sem fær skertar almannatryggingagreiðslur vegna fyrri búsetu erlendis og þarf að búa við sára fátækt, sem er óásættanlegt. Þá ber að stöðva strax og endurgreiða tvísköttun hjá eldri borgurum sem búa erlendis. Ríkisborgar fái strax öll réttindi á við aðra landsmenn.

 

Málefni aldraðra

Persónuafsláttur verði hækkaður svo að tryggja megi 320.000 kr. skattfrjálsa framfærslu á mánuð. Eldri borgurum verði tryggð mannsæmandi afkoma svo að þeir geti lifað með reisn. Stjórnarskrárvarin réttindi þessa þjóðfélagshóps verði virt í hvívetna.  Til að auka möguleika til sjálfsbjargar og í mörgum tilvikum aðstoðar við að komast upp úr sárri fátækt ber að fella brott allar skerðingar vegna launatekna aldraðra (hið svo kallaða frítekjumark)

Stórefla þarf heimahjúkrun og aðra aðstoð við aldraða í heimahúsi og sjá til þess að það lifi þar við fulla reisn. Gera þarf stórátak í fjölgun hjúkrunarrýma á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða og ríkið hætti allri eignaupptöku á eignum aldraðra t.d. sumarbústöðum o.fl.

 

Málefni öryrkja

Tryggja ber öryrkjum 320.000 kr. lágmarks framfærslu útborgað á mánuði. Afnema ber skerðingar greiðslna milli almannatrygginga og lífeyrissjóða. Lífeyrissjóðakerfið verði endurskoðað og frítekjumark afnumið.

Öryrkjum verði tryggð mannsæmandi afkoma svo að þeir geti lifað með reisn. Stjórnarskrárvarin réttindi þessa þjóðfélagshóps verði virt í hvívetna. Afnema ber skerðingar greiðslna milli almannatrygginga og lífeyrissjóða til einstaklinga og fella brott frítekjumarkið. Fullt samráð verði haft við hagsmunasamtök öryrkja um nýtt starfsgetumat m.a. með því að koma á miðstöð starfsgetu og endurhæfingar.

 

Þá skal hækka persónuafsláttinn, en ekki lækka skattaprósentuna og hætta að skerða öryrkja er þeir verða 67 ára og fara á ellilífeyri.

 

Þá verður að tryggja íslenskum ríkisborgurum með fötlun örorkulífeyri og vinnurétt við komu til Íslands.Þá verði öllum lífeyrisþegum TR sem á þurfa að halda tryggð atvinna með þeim stuðningi sem þeir þurfa á að halda.

 

Flokkur fólksins leggst gegn fyrirhuguðum breytingum um að undanþágur skattlagningar vegna bifreiða í eigu þeirra sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun, – öryrkja, foreldra langveikra og fatlaðra barna og bifreiða í eigu björgunarsveita verði felldur úr gildi, eins og lagt er til um endurskoðun skattlagningar ökutækja og eldsneytis frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Ekki er hægt að treysta orðum í sömu tillögum um að sá styrkur sem í undanþágunum felst verði að fullu bætur upp í formi beinna styrkja í gegnum almannatryggingakerfið og fjárveitingar.

 

Jafnframt leggst flokkurinn gegn hugmyndum um að undanþágu skattlagningar vegna fornbifreiða verði felld brott, enda um að ræða ökutæki sem hafa varðveislu- og menningarlegt gildi.

 

 

Heilbrigðisþjónusta

Grunnheilbrigðisþjónustan verði gjaldfrjáls og lífsnauðsynleg lyf einnig. Framlög til heilbrigðisþjónustu í hlutfalli við landsframleiðslu verði aukin. Flokkur fólksins vill endurreisa stoðkerfi landsins sem m.a. verði kostað með staðgreiðslu af inngreiðslum í lífeyrissjóði. Fullt verð fáist fyrir aðgang að öllum auðlindum og sparnaður náist með hagræðingu. Þá verður að gera stórátak í kynferðisbrotamálum og setja þennan málflokk í forgang, þannig að fórnalömbum þessa málflokks verði hjálpað strax og málin rannsökuð og fái forgang í réttarkerfinu.

Þá ber að auka framlag ríkisins til heilbrigðisþjónustu í um 11% af vergri landsframleiðslu eins og tæplega 90.000 Íslendingar hafa þegar óskað eftir í einni fjölmennustu undirskriftarsöfnun sem gerð hefur verið á Íslandi og gerðar kostnaðargreiningar í heilbrigðiskerfinu.

Flokkur fólksins vill að samið verði við sálfræðinga og þjónusta sjálfstætt starfandi sálfræðinga falli undir í sjúkratryggingar.

 

Sjúkra- og lífeyristryggingar

Allt of langur biðtími er til bæklunarlæknis er í t.d. mjaðmaaðgerð. Stöðva ber strax þá  fjársóun sem fer í aðgerðir erlendis, þar sem þær eru þrefalt dýrari en hér heima. Þá ber strax að útrýma biðlistum.

 

Húsnæðismál

Komið verði á fót félagslegu kaupleigukerfi, endurreisn verkamannabústaðarkerfisins ásamt því að koma á fót óhagnaðar drifnum leigufélögum þar sem gengdarlaus græðgisvæðing ræður ekki för og þá sérstaklega fyrir öryrkja og aldraða. Húsnæðisöryggi er grundvöllur að hagsæld og hamingju þjóðarinnar  og útrýma ber biðlistum fyrir öryrkja og eldri borgara. Friðhelgi heimilisins stjórnarskrárvarinn er réttur okkar allra.

 

Verðtrygging á neytendalánum og fasteignalánum verði afnumin og vextir lækkaðir, m.a. með því að aftengja leigu og verð húsnæðis frá vísitölumælingu Hagstofu Íslands.

 

 

Verkalýðs- og vinnumarkaðsmál

Persónuafsláttur verði hækkaður svo að tryggja megi 320.000 kr. skattfrjálsa framfærslu á mánuði. Kostnaður við aðgerðina þarf ekki að vera mikill þar sem færa má persónuafsláttinn frá þeim ríku til þeirra fátækari eru og þurfa á honum að halda.

Flokkur fólksins vill að lífeyrissjóðakerfi landsins verði endurskoðað, meðal annars kostir þess að í framtíðinni verði einn lífeyrissjóður allra landsmanna. Hafnað er lögþvingaðri upptöku á fé sjóðanna til Tryggingarstofnunar ríkisins. Staðgreiðsla skatta sé greidd við inngreiðslu í sjóðina en ekki við útgreiðslu úr þeim eins og og nú er. Tekjur ríkissjóðs munu þannig aukast um tugi milljarða króna á ári. Þetta fé skal nýta til samfélagslegra verkefna, frekar en það sé þáttur í ávöxtunarstarfi sjóðanna áratugum saman.

 

Vímuefnamál

Tæplega 30 ungmenni létu lífið vegna ofneyslu fíkniefna á fyrri helmingi ársins. Þetta er fordæmalaust ástand sem einungis hefur versnað. Stórefla verður allar forvarnir ásamt því að auka svo um munar við þau meðferðarúrræði sem í boði eru fyrir fólk í fíknivanda. Forvarnir verði stórauknar í skólum landsins og það strax í leikskóla. Þá verður að stórefla frjáls samtök sem starfa á þessu sviði til hjálpar þeim sem eru í fíkn og eru ekki hagnaðardrifin.

Stórauka  þarf aðstoða og úrræði við unga vímuefnaneytendur. Bið og slakt aðgengi að aðstoð fyrir þennan hóp getur kostað líf.

 

Börn og fjölskyldur

Hafa skal Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í heiðri. Í allri ákvörðunartöku sem varðar börn skulu þeirra hagsmunir hafðir að leiðarljósi. Hafa skal samráð við börn eftir því sem aldur og þroski þeirra leyfir í ákvörðunum er varðar þau. Hlusta skal á raddir barna, heyra óskir þeirra, þarfir og drauma og leggja allt kapp á að mæta þeim eftir því sem efni og aðstæður leyfa. Fræða þarf börn um réttindi þeirra og lýðræði samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Flokkur fólksins krefst þess að ekkert íslenskt barn búi við fátækt. Virt verði sú vernd sem stjórnarskrá veitir börnum. Þar segir: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd
og umönnun sem velferð þeirra krefst“. Öllum börnum verði tryggður gjaldfrjáls og hollur matur í grunnskólum og leikskólum. Skólastarf sé þróttmikið með áherslu á
sjálfsstyrkingu, mannleg samskipti, virðingu og kærleika.

Flokkur fólksins tekur niðurstöður um aukið hlutfall sjálfsvígs meðal stúlkna háalvarlega og telur mikilvægt að innleiða heilsueflandi skóla svo tryggt sé að hlúð sé að nemendum með fullnægjandi hætti.

Samþykkja þarf fjölskyldustefnu sem nær til allra barna og fjölskyldna þeirra. Sinna þarf forvörnum, snemmtækri íhlutun með viðtölum og viðeigandi greiningum enn betur en gert hefur verið.

 

Börn og menntun

Fjölga þarf sérskólaúrræðum enda er sá sérskóli og sérdeildir sem reknar eru nú þegar yfirfullar.

Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefni er við hæfi, þar sem félagslegum þörfum þess er mætt og þar sem það er meðal jafningja.

Skóli án aðgreiningar hefur ekki virkað sem skyldi þar sem skort hefur á að nægjanlegt fjármagn hafi verið veitt í það fyrirkomulag.

Flokkur fólksins vill sjá leik og grunnskólana verða meira heildstæða. Með heildstæðum skóla er átt við að starfi skóla, frístundar og sumarfrístundar er fléttað saman í eina heild.

Flokkur fólksins vill leggja áherslu á að sérstaklega sé hlúð að börnum í skólum landsins sem koma frá öðrum menningarsamfélögum og þeim hjálpað að aðlagast menningu og þjóð svo þau einangrist ekki.

Flokkur fólksins líður ekki ofbeldi af neinu tagi. Sinna þarf forvörnum með fullnægjandi hætti og byrja fræðslu snemma, strax í leikskóla. Foreldrar eiga að hafa aðgengi að  fræðslu og þjónustu fagaðila óski þeir eftir leiðbeiningum er varðar uppeldi eða annað er varða börn þeirra.

 

Húsnæðismál

Taka þarf á stórhækkandi fasteignagjöldum, sem taka mið af hækkandi fasteignamati, sem veldur svo hækkandi íbúða og leiguverði.

 

Alþjóðasamningar

Flokkur fólksins virði í hvívetna alla alþjóðasáttmála er varða mannréttindi og lýðræði svo sem samninga Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins. Samningur sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skal lögfesta hið bráðasta og umfram allt þarf að koma ákvæðu sem Ísland hefur ýmist þingfrest eða lögfest til framkvæmdar.

 

Grunnþarfir

Það eru mannréttindi að eiga heimili, að hafa atvinnu, og geta lifað við öryggi, án utanaðkomandi óttar eða ógnar. Það eru mannréttindi að fá að vera maður sjálfur í öllu tilliti og hafi forræði yfir eigin líkama og taka ákvörðun um eigin lífsstíl svo fremi sem aðrir hljóti ekki skaða af. Tryggja þarf almenna fræðslu og vitundavakningu um málefni og þarfir hinseginfólks, trans- og intersex fólks. Með því að stuðla að jöfnum tækifærum og virðingu fyrir öllum er lagður grunnur að velferð einstaklinga, fjölskyldna, atvinnulífs og samfélags.

 

Lýðræði

Jöfnuður er hornsteinn lýðræðis. Tryggja þarf réttlæti þegar kemur að almennu vali og kosningum. Ganga skal til þjóðaratkvæðagreiðslu í umdeildum málum. Virða skal persónuverndarlög í hvívetna, auka gagnsæi, að allir ferlar og ákvarðanir er varða almenning eiga að vera aðgengilegir. Ríkið skal tryggja borgurum sínum fullnægjandi kjör, húsnæði, menntun og heilbrigðisþjónustu. Fólk á rétt á að fá að velja sem mest hvernig lífi það kýs að lifa. Virða skal óskir og þarfir, þar með sérþarfir einstaklingsins eins og kostur er.

Alla eiga að hafa jafnan rétt að upplýsingum og að vera upplýstir um réttindi sín. Lýðræðisvæða þarf lífeyrissjóði og önnur félög og samtök sem starfa í þágu réttinda almennings. Sérhagsmunir eiga aldrei að stýra fjármagnsstreymi og framkvæmdum..

Til að auka lýðræðislega þátttöku og skilning fólks á mikilvægi þess, þarf skólakerfið að veita nemendum strax í grunnskóla fræðslu og þjálfun í verki við lýðræðislega stjórnarhætti og vinnubrögð. Öll börn eiga rétt á að stunda nám meðal jafningja þar sem sjálfsmynd þeirra og sjálfstraust fái að þroskast og dafna með eðlilegum hætti.

Embættisráðningar verði takmörkuð við 5 ár í senn og skal kjósa í öll æðstu embætti félagasamtaka er standa vörð um réttindi almennings með beinum hætti. Berjast skal gegn spillingu og sóun á fé með öllum ráðum og í þeirri baráttu skal almenningi gefið tækifæri til að hafa bein áhrif.

Heilbrigður og tryggur rekstrargrundvöll félaga sem vinna að almannahagsmuni svo sem félag neytenda, félag leigjenda, öryrkjabandalags og fleiri aðila tryggir jafnframt jöfnuð og lýðræði og skulu vera rekin án gróðrasjónarmiða.

Það er hagsmunamál að almenningur eigi sér talsmenn á sem flestum sviðum sem viðkemur stjórnsýslu og lýðheilsu og fái að vera sem mest þátttakendur í samfélagslegum ákvörðunum.

Allir séu jafnir við kosningar til Alþingis og öll atkvæði séu jöfn.